Hlustar fólk á þig?

Flestir gefast upp á að hlusta á fólk röfla á fundum og það er erfitt að hlusta á fólk í
ræðustól sem er að hugsa jafnóðum hvað það ætlar að segja. Það getur verið
heilmikið vit í því sem viðkomandi vill koma á framfæri, en ef það er illa sett fram þá
hættir fólk fljótt að hlusta og man ekkert af því sem sagt var.

Hvort sem það er verið að halda ræðu eða tjá sig um mál á fundum, þá er best að
vera vel undirbúinn. Vita hvað maður vill segja og koma skoðun sinni eða efni á
framfæri þannig að fólk hlusti og taki eftir. Það er mjög algengt að fólk byrji að
undirbúa ræðu kvöldið áður en á að flytja hana. Svo eru nokkrir sem mæta algjörlega
óundirbúnir, vita svona um það bil hvað þeir vilja segja en stama og endurtaka sig í
sífellu þegar á hólminn er komið.

Ræður eru alls konar og af ýmsu tilefni. Sumir þurfa að flytja erindi á fundum í
vinnunni, á ráðstefnum eða á námskeiðum. Fæstir eru að flytja ræður reglulega en
flest myndum við vilja vera öruggari þegar persónulegri viðburðir eru í okkar
nærumhverfi. Til dæmis í veislum, þegar það er afmæli, brúðkaup eða skírn. Það er
alltaf gaman að hlýða á vini og vandamenn sem standa upp og tala til veislugesta,
segja frá vinskap og gefa heilræði. Það er gaman þegar fólk stígur fram þokkalega
undirbúið og veit hvað það ætlar að segja. En getur orðið heldur vandræðalegt þegar
viðkomandi hikstar og stamar fyrir framan fullan sal af fólki.

Góður undirbúningur er lykilatriði. Ef þig langar að flytja ræðu í brúðkaupi er gott að
byrja á því að hugsa hvað þig langar að segja. Punktaðu niður t.d. sögur, heilræði og
almennan fróðleik. Raðaðu svo efninu niður þannig að flæðið verði gott, upphaf,
miðja og endir. Upphaf ræðu þarf að vera grípandi, þú vilt að fólk hlusti á þig. Miðjan
þarf að vera áhugaverð því þú vilt halda athyglinni. Lokaorðin mega gjarnan vera
minnisstæð, þannig að ræðan þín sitji eftir í huga áheyrenda.

Það geta allir flutt ræðu og hjá deildum Powertalk færðu tækifæri til að þjálfa
framkomu, ræðuflutning og almennt að tjá þig í hóp. Þar viðheldur fólk bæði
þekkingu og þjálfun með því að mæta á fundi og bæta í reynslubankann með
þátttöku í skemmtilegu starfi.

Spread the word. Share this post!