Sagan
Samtökin voru upphaflega stofnuð í Bandaríkjunum árið 1938 með það í huga að þjálfa konur sérstaklega í að tjá sig opinberlega. Slík þjálfun hafði fram til þess tíma einungis staðið körlum til boða. Þau hétu upphaflega Toastmistresses International.

Samtökin á 21. öldinni
Í 70 ára starfi samtakanna hafa þau nú skipt um merki og heiti í annað sinn og heita nú POWERtalk International, sem endurspeglar stefnu samtaknna sem leggur sig fram um að fullnægja þörfum félaga sinna og markaðarins, þar sem tjáskipta- og stjórnunarhæfileikar skipta sköpum til starfsframa og þátttöku á opinberum vettvangi. Starf samtakanna hefur tekið breytingum á 70 árum og innan vébanda þeirra starfar nú fólk af báðum kynjum og öllum stéttum í 22 löndum í fimm heimsálfum: Austurríki, Ástralíu, Bahama-eyjum, Bandaríkjum Norður Ameríku, Belgíu, Bretlandi, Grikklandi, Hollandi, Íslandi, Japan, Kanada, Malawí, Mexíkó, Nýja Sjálandi, Póllandi, Suður-Afríku, Taílandi og Zimbabwe.

Stofnun og starf á Íslandi
Fyrsta Toastmistress deildin sem stofnuð var á Íslandi 1973 var nefnd Puffin og starfaði á Keflavíkurflugvelli. Hún var í upphafi eingöngu skipuð enskumælandi konum, en sumar þeirra voru giftar bandarískum hermönnum. Þar kynntist Erla Guðmundsdóttir, sem vann á Keflavíkurflugvelli, samtökunum en fyrir hennar tilstilli var fyrsta íslenska Málfreyjudeildin stofnuð í Keflavík á kvennaári Sameinuðu þjóðanna, nánar tiltekið 22. desember 1975. Hún var nefnd Varðan.

Útbreiðsla
Tveimur árum seinna eða árið 1977 var Kvistur fyrsta deildin í Reykjavík stofnuð og Björkin sama ár. Fyrsta ráð Málfreyja á Íslandi var stofnað í júlí 1978 til þess að samræma starf deildanna. Á Íslandi uxu samtökin jafnt og þétt og vorið 1984 voru starfandi 17 deildir á landinu með um 425 félaga í þremur ráðum og þá var samþykkt að sækja um stofnun landssviðs til Alþjóðasamtaka Málfreyja.

Nafnabreytingar
Á ársþingi alþjóðasamtakanna, sem haldið var í Dallas, Texas árið 1984 var ákveðið að breyta heiti samtakanna úr International Toastmistress Clubs í International Training in Communication (ITC), sem var þýtt á íslensku Þjálfun í samskiptum. Nýja heitið tók gildi frá og með 1. ágúst 1985. Með breytingunum voru samtökin opnuð báðum kynjum og jafnframt var leitast við að gefa samtökunum nýja, framsækna og fagmannlega ímynd í samræmi við nýtt heiti. Hér á landi fengu samtökin heitið Landssamtök ITC á Íslandi.
Á landsþingi íslensku samtakanna í maí 2008 var samþykkt að breyta heiti landssamtakanna í þriðja sinn í POWERtalk International á Íslandi.

Þær Elísabet G. Þórarinsdóttir og Guðrún Barbara Tryggvadóttir hafa verið félagar í samtökunum til fjölda ára