Landsþing samtakanna var haldið með pompi og prakt í Hveragerði dagana 3.-5. maí. Landsþing er eins konar uppskeruhátíð samtakanna þar sem félagar koma saman til þess að fræðast og skemmta sér. Óhætt er að segja að kátt hafi verið á hjalla á hótel Örk þessa helgi. Fyrir utan hefðbundin fundarstörf voru fjölmörg fræðsluerindi haldin t.d. um Hekluskóga, öryggi í netheimum og ólík tjáskiptaform. Að dagskrá lokinni kynntu landsþingsgestir sér svo starfsemi Garðyrkjuskólans. Fyrir mörgum er það hins vegar ræðukeppni samtakanna sem er algjör hápunktur landsþingsins. Að þessu sinni var það fulltrúi Fífu, Ólöf Ásdís Ólafsdóttir sem stóð uppi sem sigurvegari ræðukeppni ársins 2019. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis og fyrrum POWERtalk félagi kitlaði svo hláturstaugarnar í hátíðarkvöldverðinum.