Spurt og svarað

Þarf maður að þekkja einhvern í samtökunum til að geta komið á fund?
Nei, þú þarft ekki að þekkja neinn, en þú ert fljót/ur að kynnast félögum og eignast góða vini, jafnvel til lífstíðar. Finndu deild sem er nálægt þér og komdu á fund. Það verður tekið vel á móti þér.

Eru einhver skilyrði fyrir mætingu á fundi í kynningarskyni?
Nei, alls ekki, öllum er frjálst að sitja nokkra fundi á meðan þeir eru að kynna sér málin.

Get ég skráð mig núna eða hvernig gerir maður þetta?
Já, þú getur skráð þig hvenær sem er. Við bjóðum þér hins vegar, hér og nú, á fund hjá hvaða deild sem er þannig að þú getir kynnt þér starfið betur. Þessar heimsóknir eru án allra skuldbindinga. Þú getur mætt nokkrum sinnum á meðan þú íhugar málið og þá kemstu að því að engir tveir fundir eru eins og bragur deilda mismunandi. Þegar þú lætur svo til skarar skríða, þá færðu umsóknareyðublað hjá deildinni til útfyllingar sem þú skilar svo inn til samþykktar.

Og hvað svo, þarf ég að byrja að tjá mig strax?
Nei, þú þarft ekki að tjá þig strax, en í upphafi hvers fundar er kynning þar sem félagar kynna sig yfirleitt sjálfir og finnst sumum það þrautin þyngri í byrjun. Þegar þú ert tilbúin/n til þess að takast á við verkefni færðu þeim úthlutað af dagskrárnefnd deildarinnar. Í byrjun færðu smærri verkefni sem þú undirbýrð heima og flytur síðan á fundi. Eldri og reyndari félagar, sem allir hafa verið í þínum sporum, ræða málið við þig á eftir og segja þér hvað var vel gert og hvað hægt hefði verið að gera betur. Við köllum það að fá hæfnismat. Fyrstu verkefnin eru gjarnan stutt og laggóð, 1-2 mínútur. Verkefnin stækka síðan eftir því sem öryggi þitt og færni eykst.

Um hvað talar maður í ræðum, þarf ég að finna upp á því sjálf/ur eða er mér úthlutað ákveðnu ræðuefni?
Varðandi ræðuefni, þá hafa fundirnir gjarnan eitthvert stef eða nokkurs konar þema. Oft eru stefin tengd málsháttum, skemmtilegum tilvitnunum eða einhverjar setningar sem geta vakið mann til umhugsunar. Fyrstu verkefnin eru oft miðuð við þessi stef og myndi ræðan þín þá vera hugleiðingar þínar sem tengjast þessu málefni. Við erum hins vegar ekki eingöngu að flytja ræður, heldur margvísleg annars konar verkefni. Meðal þeirra má telja ljóðalestur, bókakynningu eða hvers kyns fræðslu upp í 40 mín. fyrirlestur með glærukynningu. Allt eru þetta samt verkefni sem miða að því að auka þor, færni og sjálfstraust þannig að okkur líði vel fyrir framan hóp af fólki og getum komið skilaboðum okkar áleiðis.

Hvað kostar aðild?
Árlegur kostnaður er um eða rétt yfir 30 þúsund krónur á ári. Gjaldið er þó mismunandi eftir deildum og felst munurinn þá aðallega í því hve mikið hver og ein deild greiðir í húsaleigu.

Er einhver annar kostnaður?
Já, á stærri fundum eins og fræðslufundum, landsþingi og sértækum námskeiðum fellur til annar kostnaður til að standa straum af húsaleigu, veitingum og undirbúningi. Ávallt er þó leitast við að halda öllum kostnaði í lágmarki. Framangreindir viðburðir eru valkvæðir, en félagar hagnast vel á því að mæta.

Er POWERtalk bara fyrir konur?
Nei, POWERtalk er opið öllum sem hafa áhuga, bæði konum og körlum.

Eru aldurstakmörk?
Nei, engin aldurstakmörk og við teljum að því breiðara sem aldursbilið er, því meira lærum við hvert af öðru.

Hvað eru margir félagar í hverri deild?
Algengur fjöldi er um 7-10 félagar.

Hvenær hefst starfið?
Starfsárið er frá 1. júní til 31. maí. Reglulegt deildarstarf hefst í byrjun september og stendur fram í miðjan maí. Stjórnir deilda hefja þó almennt starfið fyrr til að undirbúa vetrarstarfið. Þó svo að starfið hefjist formlega að hausti er ekkert því til fyrirstöðu að byrja hvenær sem er.

Er mætingaskylda?
Félagar reyna eftir fremsta megni að mæta á fundi, en ef þú kemst ekki þá tilkynnir þú einfaldlega forföll.

Hversu oft er fundað?
Almennt funda deildir sem sinna grunnþjálfun tvisvar í mánuði og hægt er að sjá fundadagskrá hverrar deildar hér. Undantekningin er Saga þar sem félagar þjálfa sig í ensku, en þar er fundað mánaðarlega.

Exit mobile version